Menningarmánuðurinn október á Byggðasafni Árnesinga
Menningarmánuðurinn október á Byggðasafni Árnesinga

Ýmislegt verður í boði á safninu í Menningarmánuðinum október. Leiðsagnir verða á sumarsýningu safnsins „Yfir beljandi fljót“, ratleikur verður í boði alla sunnudaga og fróðlegir fyrirlestrar verða í varðveisluhúsi safnsins. Einn sunnudag býður Þjóðbúningafélag Íslands upp á glæsilega dagskrá og Leikfélag Eyrarbakka stendur fyrir einstöku bíókvöldi. Húsið, Sjóminjasafn, Kirkjubær og Eggjaskúr verða opin alla sunnudaga í október kl. 13 – 17. Fjölbreyttir viðburðir verða í varðveisluhús á Búðarstíg 22. Ókeypis verður á alla viðburði safnsins, bæði í sýningarhúsum og í varðveisluhúsi. Verið velkomin! Dagskráin hljómar svona:
Sunnudagurinn 5. okt. kl. 14.00
„Yfir beljandi fljót“ leiðsögn Lýðs Pálssonar, safnstjóra um sýninguna í borðstofu HÚSSINS.
Sunnudagurinn 12. okt. kl. 14.00 – 16.00
„Þjóðbúningar & skart“ – Þjóðbúningafélag Íslands býður upp á glæsilega dagskrá sem hefst með móttöku og fyrirlestri á Búðarstíg 22. Skrúðganga í fylgd fornbíla fer þaðan að Sjóminjasafni. Örkynningar á þjóðbúningaskarti og fróðlegu efni verða í Sjóminjasafninu. Kaffiveitingar í Húsinu. VARÐVEISLUHÚS – SJÓMINJSAFN – HÚSIÐ
Laugardagur og sunnudagur 18. og 19. okt. kl. 20.00
„Stöndum saman“, bíókvöld Leikfélags Eyrarbakka. Nú gefst einstakt tækifæri til að sjá þessa vinsælu leiksýningu „Stöndum saman“ í kvikmyndaútgáfu. Persónur úr verkinu mæta sjálfar á svæðið í fullum karakter og þú færð að upplifa andrúmsloft sýningarinnar á einstakan hátt. Popp og kók á staðnum.
VARÐVEISLUHÚS BÚÐARSTÍG 22.
Sunnudagurinn 19. okt. kl. 14.00
„Yfir beljandi fljót“ leiðsögn Lindu Ásdísardóttur, sýningarstjóra um sýninguna í borðstofu HÚSSINS.
„Þorpsbúar“ sýning með ljósmyndum Lindu Ásdísardóttur af Eyrbekkingum frá árinu 2003. Sýningin sem var styrkt af Kvenfélagi Eyrarbakka endursýnd í KIRKJUBÆ.
Sunnudagurinn 26. okt. kl. 14.00
„Sögu horfinna húsa á Eyrarbakka púslað saman“. Fyrirlestur Ingu Láru Baldvinsdóttur og Magnúsar Karels Hannessonar höfundar bókarinnar „Eyrarbakki byggð í mótun. Horfin hús 1878 – 1960.“ VARÐVEISLUHÚS BÚÐARSTÍG 22.
Sunnudagurinn 2. nóv. kl. 14.00
„Var hún Snorrabúð einhvern tímann stekkur?- um fornleifarannsóknir á Þingvöllum í gegnum tíðina“. Fyrirlestur Margrétar Hallmundsdóttur fornleifafræðings um fornleifarannsóknir á Þingvöllum frá ofanverðri 19. öld til dagsins í dag. VARÐVEISLUHÚS BÚÐARSTÍG 22.