Ljúf og notaleg jólastemning í Byggðasafni Árnesinga

nóv 18, 2022

Aðventan verður að venju ljúf á Byggðasafni Árnesinga. Jólasýning safnsins, barnabókastund, jólalegir langspilstónar og bókaupplestur höfunda er meðal þess sem gestir geta notið.

Jólasýning Byggðasafns Árnesinga verður opin frá 13:00 – 17.00 helgarnar 26.-27. nóv, 3.-4. des. og 10.-11. des. Aðgangur ókeypis og opin músastigasmiðja alla daga. Í safnbúð verður kærleikskúla Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til sölu og rennur allur ágóði sölunnar til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Skáldastund.

Sunnudaginn 27. nóvember, klukkan 16:00, lesa rithöfundar úr nýútkomnum verkum sínum. Í ár heimsækja Húsið Einar Kárason, Elísabet Jökulsdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og Þór Stefánsson.

Barnabókastund.

Laugardaginn 3. desember, klukkan 14:00, munu Bergrún Íris Sævarsdóttir og Gunnar Helgason rithöfundar lesa upp úr verkum sínum og spjalla við gesti. Við lofum fjörugum upplestri og fræðandi spjalli um bækur, lestur og teikningar. Það verður án efa líf og fjör!

Bakkadrottningin.

Laugardaginn 10. desember, klukkan 14:00, les Kristín Bragadóttir upp úr verki sínu Bakkadrottningin Eugenía Nielsen. Verkið hverfist um Eugeníu sem var driffjöður í framfara og menningarlífi á Eyrarbakka í sinni tíð.

Jólalegir langspilstónar.

Sunnudaginn 11. desember, klukkan 16:00, flytur Eyjólfur Eyjólfsson tenórsöngvari jólalög og fyllir stássstofu Hússins af þjóðlegum jólatöfrum.

Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.