Leiksýningin Fjallkonan
Leiksýningin Fjallkonan
Leiksýningin Fjallkonan eftir Heru Fjord verður flutt í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 6. október kl. 15 og 20. Sýningin er liður í Menningarmánuðinum október í Árborg og er aðgangur ókeypis.
Kristín Dahlstedt var veitingakona í 50 ár. Á Laugaveginum og víðsvegar í Reykjavík rak hún veitingahús og gistiheimili frá árinu 1905, oftast undir nafninu Fjallkonan.
Hún var frumkvöðull og nútímakona sem gerði hlutina eftir sínu eigin höfði, bæði í atvinnu og einkalífinu.
Hera Fjord, langalangömmubarn Kristínar hefur kynnt sér sögu hennar vel og segir áhorfendum á litríkan og skemmtilegan hátt frá lífi hennar en veltir á sama tíma fyrir sér eigin lífi. Hvað á hún sameiginlegt með þessari formóður sinni? Er hún jafn dugleg? Hvenær er maður nógu duglegur?
Einleikurinn Fjallkonan var frumsýndur á Act Alone hátíðinni 2017 og fékk þar stórkostlegar viðtökur. Sýningin var sýnd í Tjarnarbíói Reykjavík 2017 og verður nú loks sýnd á Eyrarbakka þar sem Hera er búsett.
„Þetta er sagan okkar allra“
„Hélt ekki að þetta væri leikrit sem myndi höfða til mín en ég skemmti mér mjög vel og var með athyglina allan tímann“
„..og Hera segir þessa sögu ótrúlega vel, það vel að sagan af langalangömmunni vakti það mikinn áhuga hjá okkur að við keyptum frumútgáfuna á Þingeyri í fyrstu bókabúðinni sem við fundum“
-Áhorfendur á Act Alone
————————————–
Fjord Productions
Höfundur & leikkona: Hera Fjord
Leikstjórn: Ragnheiður Harpa Leifsdóttir
Tónlistarumsjón: Sigrún Harðardóttir
Leikmynd & búningar: Eva Björg Harðardóttir