Heiðursfélagar og heiðursfararstjórar
Heiðursfélagar og heiðursfararstjórar
Þrátt fyrir að Þjónustuhús Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka hafi einungis það hlutverk að hýsa innra starf safnsins, skrifstofu, vinnuaðstöðu og aðalgeymslur, kemur einstaka sinnum fyrir að góða gesti ber að garði. Það eru átta ár liðin síðan fimm heiðursmenn komu í heimsókn og áttu gott spjall við undirritaðan safnstjórann. Í lok heimsóknarinnar var þessi fína ljósmynd tekin. Frá því myndin var tekin hafa þeir allir fallið frá.
Þeir komu í heimsókn þann 23. apríl 2004. Í gestabókinni stendur með rithönd fararstjórans Páls Lýðssonar: „Heiðursfélagar Búnaðarsambands Suðurlands með heiðursfararstjórum“. Undir þennan haus skrifa Hjalti Gestsson frá Hæli (1916-2009), Sveinn Skúlason í Bræðratungu (1927-2007), Helgi Ívarsson frá Hólum (1929-2009) og síðast en ekki síst Sigurður Hannesson á Villingavatni sem fæddur var 1926 en verður jarðsunginn í dag 15. júní 2012. Páll Lýðsson (1936-2008) lét sér nægja að skrifa hausinn enda tíður gestur á skrifstofu sonar síns.
Þennan dag var aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Selfossi. Að tillögu Þórarins Þorfinnssonar formanns Bssl. voru þeir Páll og Helgi fengnir til að fara með heiðursfélaga sambandsins í fræðsluferð niður á ströndina en nánari tilhögun ferðarinnar er sennilega komin í glatkistu sögunnar. Þeir Sveinn og Hjalti voru heiðursfélagar en Sigurður á Villingavatni var fastagestur á aðalfundunum og setti stóran svip á þá enda með sterkar skoðanir á málefnum landbúnaðarins.
Myndatexti: Talið frá vinstri, Páll, Sigurður, Hjalti, Sveinn og Helgi fyrir framan þjónustuhús Byggðasafns Árnesinga 23. apríl 2004.