Gagnagrunnurinn sarpur.is

feb 8, 2019

Sarpur forsíðumyndÞú lesandi góður getur með heimilistölvu þinni skoðað hvað finna má af íslenskum menningararfi í íslenskum söfnum og stofnunum með því að fara inn á vefinn www.sarpur.is.  Leita má að munum, ljósmyndum, listaverkum, fornleifum, húsum, örnefnalýsingum og þjóðháttum með því að fara inn á Sarp. Um 50 söfn eru aðilar að Sarpi sem þau reka saman í sérstöku rekstrarfélagi sem stofnað var 2002. Fyrir almenning fór vefurinn í loftið í maí 2013 en í áratug á undan höfðu aðildarsöfnin unnið í innri-vef Sarps að innfærslu gagna sem fjölgar dag frá degi. Rúmlega 1.200.000 færslur má finna í Sarpi í dag. Síðustu árin hafa söfnin keppst við að ljósmynda muni og skanna ljósmyndir til að mynd fylgi hverri færslu. Því verki er langt frá því lokið.

Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið á Eyrarbakka er með allan sinn safnkost í Sarpi og er öðru hverju verið að bæta skráningu með innsetningu ljósmynda af safnkostinum. Sarpur er eitt helsta og mikilvægasta hjálpartæki safnsins við starfsemina því þannig næst góð yfirsýn yfir safnkostinn. Rúmlega sjö þúsund munir og  nálægt sjö þúsund ljósmyndir safnanna á Eyrarbakka eru skráðir í Sarp. Og tæplega eitt þúsund fornleifar sem Byggðasafn Árnesinga hefur skráð.

Stærsta safnið sem á aðild að Sarpi er Þjóðminjasafn Íslands en söfn hér austan fjalls eru með aðild að Sarpi, eins og Byggðasafn Árnesinga, Listasafn Árnesinga, Byggðasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga og Sagnheimar í Vestmannaeyjum. Sunnlendingar geta því séð ýmislegt fróðlegt um arfleifð sína með því að fara inn á vefinn. Leitarorð eru eins fjölbreytt og hugsast getur og hægt að leita að efnisheitum, örnefnum, gefendum og notendum. Sem dæmi um leitarorð mætti nefna Selfoss, Ölfusárbrú, Bjarnveig Bjarnadóttir, askur, Egill Thorarensen, Þórður Tómasson, Laugarvatn, Sigríður Tómasdóttir og hægt er að finna út hvað mörg fótanuddtæki hafa ratað á íslensk söfn. Og eru afi þinn og amma kannski þarna líka? Eða gamla höfuðbólið? Þú sjálfur? Hver veit. Hægt er að þrengja leitarskilyrðin eftir söfnum og flokka aðfanga. Ef þig langar til að eignast ljósmynd úr Sarpi af gamalli ljósmynd eða safnmun geturðu með einföldum hætti pantað hana og greitt gjald eftir verðskrá viðkomandi safns. Ef þú býrð yfir frekari vitneskju og vilt bæta við skráninguna þá hakarðu einfaldlega við „Veistu meira?“ og þá bregðast safnmennirnir við og lagfæra skráninguna.

Fyrir söfnin er nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir safneign sína og skráning því afar mikilvægur þáttur í safnastarfseminni. Með tilkomu þessa gagnagrunns hafa söfnin og reyndar almenningur allur möguleika á að finna samsvarandi gripi og í nútímavæðingu samfélagsins er ekki nauðsynlegt að allir safni því sama. Nú til dags er samræmi í söfnun gripa sem bjóðast, þökk sé Sarpi.

Sarpur er fjölbreyttur vefur með ógrynni upplýsinga um íslenska menningu. Verið velkomin að skoða þennan stóra menningargrunn.

 

Lýður Pálsson

safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.

 

 (birt í Dagskránni. Fréttablaði Suðurlands, 6. febrúar 2019)