Fornleifauppgröftur á Vesturbúðarhól

Fornleifauppgröftur á Vesturbúðarhól

16/08/2022

Fimm fornleifafræðingar undir stjórn Ragnheiðar Glóar Gylfadóttur fornleifafræðings unnu að fornleifagreftri á Vesturbúðarlóðinni þrjár vikur í maí. Grafið var upp vestasta húsið, Fönix. Kom í ljós hleðslur undir Fönix og má áætla að þær hleðslur séu eldri.

Fornleifafræðingar í grunni Fönix.

Fönix var einnig nefnt kornhúsið og var eitt húsa Vesturbúðarinnar sem voru verslunarhús Eyrarbakkaverslunar til 1925. Þessi hús voru fjögur til sex eftir því hvernig þau voru talin og þangað komu bændur af öllu Suðurlandi til viðskipta á meðan Eyrarbakki var aðal verslunarstaðurinn. Hús Vesturbúðarinnar voru byggð a mismunandi tímum en að grunni voru þau frá fyrrii hluta 18. aldar. Vesturbúðin var rifin árið 1950.

Fornleifastofnun Íslands ses sér um uppgröftinn sem styrktur var af Fornleifasjóði og sveitarfélaginu Árborg. Verkbeiðandi er Vesturbúðarfélagið á Eyrarbakka.  Áfram verður á næstu árum haldið að grafa í Vesturbúðarhólinn til að kanna byggingasöguna. Áætlanir Vesturbúðarfélagsins eru að endurbyggja Vesturbúðina á upprunalegum stað og er því fornleifauppgröftur nauðsynlegur.

Fornleifafræðingarnir  höfðu aðstöðu í húsakynnum Byggðasafns Árnesinga að Búðarstíg 22 til að matast og skrásetja það sem kom upp af fornleifum í greftrinum.

Frá vinstri eru Ágústa Edwald, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Kristjana Vilhjálmsdóttir, Agla Geirlaug Aradóttir og Lilja Laufey Davíðsdóttir.
Kristjana Vilhjálmsdóttir að þrífa gripi.