Ferðahöfn Vesturfara – Vígsla á nýjum minningabekk við Byggðasafn Árnesinga

Ferðahöfn Vesturfara – Vígsla á nýjum minningabekk við Byggðasafn Árnesinga

22/08/2025
Úfinn sjór við Eyrarbakkahöfn í upphafi 20. aldar Ljósm Agnes Lunn.

Föstudaginn 29. ágúst verður vígsla á nýjum minningabekk við Byggðasafn Árnesinga fyrir framan Húsið á Eyrarbakka. Félagið Icelandic Roots hefur unnið í samstarfi við safnið og Sveitarfélagið Árborg, að skilti á bekk til heiðurs Íslendingum sem fluttust burt til Norður Ameríku á tímabilinu 1854-1914.

Stærsta bylgja vesturheimsferða hófst árið 1870 þegar fjórir ungir menn sem allir tengdust Húsinu, fóru frá Eyrarbakka vestur um haf og settust að á Washington-eyju á Michican-vatni. Tveimur árum síðar fóru 15 Eyrbekkingar til Ameríku. Þeirra á meðal voru verðandi prestar, Páll Þorláksson, „faðir Íslendingabyggðarinnar í Dakota“, og kaupmannssonurinn Hans Baagöe Thorgrímsen. Hans var ástsæll prestur sem átti þátt í að koma á fót kirkjum í Norður-Dakóta, þar á meðal Víkurkirkju, elstu kirkju Norður-Ameríku. Árið 1875 hófust ferðir til Winnipeg í Kanada.

Dagskráin hefst kl. 14 við Húsið. Til máls taka Bragi Bjarnason bæjarstjóri Árborgar og Sunna Olafson Furstenau forseti Icelandic Roots. Svo verður bekkurinn afhjúpaður. Hönnuður minningarskiltisins er Sylvía Kristjánsdóttir. Viðburðurinn er opin öllum áhugasömum.

Icelandic Roots er átthagafélag sem varðveitir tengsl, tungumál og menningararf Íslendinga í Vesturheimi. Félagið hefur veg og vanda af þessum minningarbekk.

Sveitarfélagið Árborg býður upp á kaffi og kleinur á Stað eftir vígslu við Húsið. Verkefnið er samstarfsverkefni Icelandic Roots, Byggðasafns Árnesinga og Sveitarfélagsins Árborgar.