Farskóli íslenskra safna og safnafólks á Selfossi 2025

Farskóli íslenskra safna og safnafólks á Selfossi 2025

05/11/2025

 

Eitt af fjölmörgum verkefnum Byggðasafns Árnesinga á þessu ári var að halda utan um Farskóla FÍSOS sem haldinn var á Hótel Selfoss í byrjun októbermánaðar.  “Áreiðanleiki, trúverðugleiki og sannindi í íslenskum safnaheimi” var þema farskólans og skírskotar til nýja miðbæjarins á Selfossi. Lýður Pálsson safnstjóri var farskólastjóri og farskólinn kynnti sér Byggðasafn Árnesinga í vettvangsferð 1. október. Farskólanemar skoðuðu sýningar safnsins og varðveisluhús þess og lögðu starfsmenn Byggðasafns Árnesinga töluverða vinnu á sig til undirbúnings móttöku farskólans. Eftirfarandi texti byggir á umfjöllun Safnaráðs um farskólann.

Þessi árlega fagráðstefna safnafólks Farskólinn var haldinn í 37. sinn á Hótel Selfossi dagana 1. til 3. október 2025. Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS) stendur að ráðstefnunni og tókst vel í alla staði. Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur fyrir starfsþróun, fræðslu og tengslamyndun safnafólks sem kemur úr öllum landshlutum og þátttakan var góð í ár, en 160 manns sóttu hann að þessu sinni. Þema farskólans að þessu sinni var „Áreiðanleiki, trúverðugleiki og sannindi í söfnum“ og var dagskráin þétt og fjölbreytt og samanstóð af m.a. fyrirlestrum, málstofum, ratleik og vettvangsferð um Suðurland.

Farskólinn var settur snemma á miðvikudegi og hófst á erindinu ‘Can practicing art heal society disorders by reconnecting our minds with our bodies?‘ sem var flutt af Thomasine Giesecke, listamanni og umsjónarmanni fræðslu hjá Musée D´Orsay og Louvre söfnum í París. Hún fjallaði um árangur og mikilvægi listmeðferðar sem getur haft heilandi áhrif á ólíka hópa í samfélaginu. Þá voru einnig erindi frá fagstjóra Sarps, sem bar titilinn Nýr Sarpur: Staðan núna, þar sem Vala Gunnarsdóttir fór yfir stöðu mála á nýjum Sarpi. En nú fer að sjá fyrir endanum á þeirri vinnu og nýr Sarpur lítur vonandi dagsins ljós á næstu mánuðum og mun án efa bæta skráningarmál safngripa til muna. Rekstrarfélagið Sarpur hefur verið í þróunarsamvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Zetcom um nýjan Sarp og Marcell Zemp, stofnandi og forstjóri Zetcom, sagði frá samstarfinu og fyrirtækinu sem sérhæfir sig í að þróa hugbúnaðarlausnir og þjónustu fyrir söfn, safneignir og skjalasöfn fyrirtækja og stofnanna.

Aðalfundur FÍSOS haldinn yfir léttum hádegisverði og í lok fundarins var ánægjulegt að klappa fyrir nýjum heiðursfélögum FÍSOS þeim Elínu S. Sigurðardóttur, Frosta F. Jóhannessyni, Guðmundi Ólafssyni og Ingu Jónsdóttur.

Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs hélt erindið: Hvar stendur þitt safn? Tölur úr safnastarfi 2016-2023. Þar fjallaði Þóra m.a. um þær upplýsingar sem Safnaráð safnar um safnastarf og hvað er gott að hafa í huga þegar rýnt er í tölfræði og hvað ber að varast, t.d. getur tölfræði verið villandi ef það skortir samhengi eða upp koma skekkjubundin úrtök og fleira fróðlegt.

Að loknum erindum fóru farskólanemar í vettvangsferð um Ölfus og Flóann undir leiðsögn Hannesar Stefánssonar fyrrum framhaldsskólakennara í þremur stórum rútum frá Guðmundi Tyrfingssyni. Heimsótt voru Listasafn Árnesinga í Hveragerði, Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka og síðan keyrður Gaulverjabæjarvegur og Votmúlavegur að Hersafni Einars Elíassonar á Selfossflugvelli þar sem var mótttaka í boði Svf Árborgar. Bergsteinn Einarsson kynnti Hersafnið og Kjartan Björnsson forseti bæjarstjórnar Árborgar ávarpaði farskólann. Að loknum kvöldverði á veitingastöðum Selfoss var haldið Pub quiz í Risinu í gamla mjólkurbúinu í miðbænum undir stjórn Sigurlaugar Ingólfssonar.

Bergur Ebbi opnaði fimmtudaginn með erindi um söfn, sjálfsmynd og samvisku áður en fjölbreyttar málstofur á vegum safnafólks hófust. Haldnar voru 15 málstofur, í þeim var m.a fjallað um varðveislu, sýningar, framtíð torfbæja, ferðaþjónustu, safnfræðslu, listmeðferð, sjónlýsingu fyrir blinda og sjónskerta og náttúru.

Dagskrá fimmtudagsins var brotinn upp með ratleik um Selfoss og stórskemmtileg árshátíð félagsins fór svo fram á Hótel Selfossi um kvöldið þar sem allir skemmtu sér vel.

Á síðasta deginum var umræða um nýjan miðbæ Selfoss, sem var skírskotun í þema Farskólans. Þar héldu Sigurður Einarsson arkitekt nýja miðbæjarins erindi um hann og í kjölfarið hélt Vilhelmína Jónsdóttir, þjóðfræðingur og sérfræðingur í menningaráðuneytinu, erindið; Um aðdráttarafl og fortíðleika í nýjum miðbæ Selfoss og að lokum sátu þau svo undir svörum farskólanema.

Farskólinn er haldinn af Félagi íslenskra safna og safnafólks með stuðningi Safnaráðs og með þátttökugjöldum. Í farskólastjórn voru Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga, sem var farskólastjóri, Sigurlaugur Ingólfsson, Borgarsögusafni, Helga Aradóttir, Náttúruminjasafni Íslands og Kristín Scheving, Listasafni Árnesinga. Með farskólastjórn starfaði einnig Dagrún Ósk Jónsdóttir starfsmaður FÍSOS. Farskólastjórn hélt marga undirbúningsfundi frá ársbyrjun og fram að farskólanum, flesta á Teams.

Farskóla var slitið í Tryggvaskála undir rödd brottflutta Selfyssingins sem var Einar Bárðarson. Kynntur var Farskóli FÍSOS 2026 sem haldinn verður á Ísafirði næsta haust.

Hópmyndin var tekin í garði Hússins á Eyrarbakka 1. október af Herði Geirssyni safnverði á Minjasafninu á Akureyri. Aðrar myndir tók Lýður Pálsson safnstjóri.