Lóur syngja

Dec 12, 2019

Sönghópurinn Lóur syngur nokkur falleg jólalög sunnudaginn 15. desember kl. 15  í Húsinu á Eyrarbakka og munu þær svo sannarlega fylla Húsið af fögrum jólatónum.

Safnið er með sérstaka jólaopnun í desember og þessa komandi helgi er opið bæði laugardag og sunnudag frá 14 til 17 og enginn aðgangseyrir. Kaffi og konfekt í boði. Gestum gefst jafnframt gott tækifæri til að skoða jólasýningu safnsins þar sem gömul jólatré eru í forgrunni. Elsta varðveitta jólatré landsins er spýtujólatré frá Hruna sem var smíðað árið 1873. Nú er nýsmíðuð eftirlíking af Hrunatrénu til sýnis og var þetta árið fallega skreytt af krökkum í 10. bekk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þetta eru síðustu dagar í séropnun safnsins fyrir þessi jól en alltaf má panta séropnun fyrir hópa stóra sem smáa og skólabörn eru sérlega velkomin. Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.