Bókin Húsið á Eyrarbakka

nóv 14, 2014

???????????????????????????????Bókin Húsið á Eyrarbakka eftir Lýð Pálsson safnstjóra kom út í sumar. Bókin segir sögu íbúanna í  Kaupmannshúsinu á Eyrarbakka frá árinu 1765 til dagsins í dag og tengir við sögu samfélagsins í heild. Húsið er merkur minnisvarði um dönsk áhrifa á Suðurlandi bæði á atvinnu- og menningarlíf ásamt því að vera stórbrotin bygging. Kaupmannshjónin og húsráðendur Hússins, Guðmundur Thorgrímsen og Sylvía kona hans, ríktu á tímum gullaldar á Eyrarbakka um miðja 19. öld en í upphafi 20. aldar fengu seinni kynslóðir kaupmanna annan veruleika að glíma við. Þeirra saga fær mikið pláss í bókinni enda ferlinn þeirra farsæll og saga afkomenda þeirra áhugaverð. Þar er ekki síst að nefna barnabarn þeirra Guðmundu Nielsen, kaupmann, tónskáld með meiru. Í Húsinu bjuggu þó ekki aðeins kaupmenn og vinnuhjú þeirra heldur var þar fjölbeytt búsetufyrirkomulag þar til síðasti ábúandinn Auðbjörg Guðmundsdóttir eignast húsið 1979. Fjölmargir dvöldu þar um lengri eða skemmri tíma eins og listafólk, tónskáld, rithöfundar, alþýðufólk, hermenn og ljómyndari. Húsið er í dag sýningarhúsnæði Byggðasafns Árnesinga og þar er sögð margbrotin saga sýslunnar.

Bókin er afrakstur rannsókna Lýðs yfir langt tímabil og inn í fróðlega sagnfræði fléttar hann skemmtilegum frásögnum og viðburðum úr sögu Hússins. Bókinni er tekið fagnandi enda margir beðið eftir slíku riti. Bókin er í stóru broti, prýdd fjölda ljósmynda, litprentuð og á 80 síðum. Sylvía Kristjánsdóttir sá um hönnun og umbrot en Oddi prentaði. Byggðasafn Árnesinga gefur bókina út.

Bókin er seld í öllum helstu bókabúðum landsins en einnig er hægt að kaupa hana beint frá safninu og fá hana senda beint heim. Hafið samband í síma 483 1504 eða með tölvupósti á husid@husid.com eða lydurp@husid.com.