Beitningaskúr 

Falin safnabygging á Eyrarbakka er Beitningaskúrinn í miðju þorpinu þétt við sjóvarnargarðinn. Þar hefur tíminn staðið í stað, beitningarbalar, veiðarfæri og ilmur hafsins mæta gestum.  Skúrinn var byggður árið 1925 á blómaskeiði vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Á fyrstu áratugum skúrsins var hann notaður sem geymsla og saltfiskhús og voru aðgerðarstíur framan við hann.  Síðar varð hann beitningaskúr á vetrarvertíð.  Þar var unnið frá 3 að nóttu við að beita í bjóð fyrir bátana sem voru á línuveiðum. Allsérstæð klæðning er á vesturhlið skúrsins, þar sem lítill árabátur hefur verið tekinn og flattur út og notaður sem klæðning á vegginn. Beitningaskúrinn er minnisvarði um horfna atvinnuhætti og horfið menningarlandslag.  Hann stendur einn eftir ofan við svonefnda Heklubryggju þar sem áður var löng röð aðgerða- og beitningaskúra. Síðasti eigandi Beitningaskúrsins  Bjarni Jóhannsson gaf hann til Sjóminjasafnsins árið 1991. Skúrinn er opinn eftir samkomulagi og þar eru stundum haldnir viðburðir sem iðulega verða töfrum slungnar stundir.  

 

Nánar um heimsókn í Beitingarskúrinn: 

síma 483 1504 /483 1082 og með tölvupósti info@byggdasafn.is