Ásgrímsleiðin

apr 5, 2023

Ásgrímsleiðin er uppástunga til ferðamanna um að þræða slóðir Ásgríms Jónssonar listmálara sem fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Upphaf leiðarinnar getur verið í Hveragerði, á Eyrarbakka eða í Reykjavík. Gestir leiðarinnar geta valið hvar þeir byrja og henni má jafnvel skipta á tvo daga. Ef lagt er af stað frá Eyrarbakka er upplagt að byrja á því að heimsækja Húsið og skoða sýninguna „Drengurinn, fjöllin og Húsið“ sem fjallar um hinn unga Ásgrím. Opið er yfir páskana alla daga kl 13.00-17.00.

Þaðan lægi leiðin meðfram ströndinni í austurátt í gegnum Stokkseyri og upp Gaulverjabæjarveginn. Ásgrímur hvílir í Gaulverjabæjarkirkjugarði, þar er hægt að stoppa og ganga að leiðinu. Næsti áningarstaður á Ásgrímsleiðinni væri skógræktin í Timburhólum sem er örstutt frá æskustöðvum hans. Minnismerki um listamanninn stendur í útjaðri skógræktarinnar, norðaustan við skóginn. Þótt húsin í Rútsstaðarhverfi séu löngu horfin má enn sjá frá veginum klettana sem Ásgrímur taldi vera álfakirkju. Á þessari leið sést vel fjallahringurinn sem fóstraði sveininn og veitti honum innblástur. Síðan væri upplagt að heimsækja sýninguna Hornsteinn í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Listamaðurinn sjálfur ánafnaði Listasafni Íslands verk sín og heimili á Bergstaðastræti 74 í Reykjavík og þar er í dag sýning á heimili hans og verkum. Upplagt er að heimsækja Hús Ásgríms í kjölfarið.

Ásgrímsleiðin er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Listasafns Árnesinga og Listasafns Íslands.

Rætur Listasafns Árnesinga má rekja til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur, frænku Ásgríms, og tveggja sona hennar sem færðu Árnesingum sjötíu listaverk eftir helstu listamenn þess tíma. Nítján þessara verka voru eftir Ásgrím. Ásgrímur var vikapiltur í Húsinu á Eyrarbakka uppúr fermingu og fór þaðan fullviss um köllun sína í lífinu þannig má finna arfleifð sveitadrengsins úr Árnessýslu í öllum söfnum.