Altarisdúkar í Árnesþingi

okt 23, 2015

Afmæli2Altarisdúkar verða í sviðsljósinu á Byggðasafninu á Eyrarbakka á Safnahelgi þegar kynnt verður verkefnið Altarisdúkar í kirkjum á Suðurlandi. Verkefnið er hluti af stærri rannsókn Altarisdúkar í íslenskum kirkjum og að henni vinna Jenný Karlsdóttir og Oddný E. Magnúsdóttir. Ljósmyndir og önnur gögn úr verkefninu verða til sýnis í borðstofu laugardag 31. október og sunnudag 1. nóvember n.k. kl 13-17 báða dagana. Jenný og Oddný taka á móti gestum.

Verkefnið felur í sér að kanna gerð altarisdúka, ljósmynda þá og skrá upplýsingar. Sérstök áhersla er lögð á að skoða munstur og vinnsluaðferð handunninna dúka. Þegar hafa verið skoðaðir altarisdúkar á öllu norðanverðu landinu, þ.e. frá Langanesi vestur í Djúp. Auk þess er vinna hafin á Austurlandi og Borgarfirði syðra og Mýrum.

Verkefnið hefur jafnan verið unnið í góðri samvinnu við prófastsdæmin og söfn eða önnur menningarhús og oftast lokið með sýningu/kynningu á viðkomandi svæði.

Í upphafi naut verkefnið stuðnings Kristnihátíðarsjóðs en fleiri styrktar- og menningarsjóðir hafa greitt götu þess.

Nú síðast var vinnan í Árnesþingi styrkt af Menningarráði Suðurlands í samstarfi við Byggðasafn Árnesinga og ber að þakka þann stuðning.

Ókeypis aðgangur er á þennan lið í Safnahelgi á Suðurlandi.dúkar