Hátíðarsamkoma í tilefni 250 ára afmælis Hússins
Hátíðarsamkoma í tilefni 250 ára afmælis Hússins
Húsið á Eyrarbakka 250 ára
Í sumar eru 250 ár liðin síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt. Af því tilefni boðar Byggðasafn Árnesinga til hátíðarsamkomu í Húsinu á Eyrarbakka þann 9. ágúst næstkomandi og hefst kl. 14. Á samkomunni verða flutt erindi og ávörp auk þess sem tónlist tengd Húsinu verður flutt. Þau sem koma fram á samkomunni eru m.a. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, Valgeir Guðjónsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Ármann Pétursson og Hlín Pétursdóttir. Léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir. Samkoman er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
Húsið var byggt af Almenna verslunarfélaginu í Kaupmannahöfn árið 1765 sem árið áður hafði fengið einkarétt á verslun á landinu. Enn erum við á tímum einokunarverslunar. Á vegum Almenna verslunarfélagsins var danskur reynslumikill kaupmaður, Jens Lassen að nafni, ráðinn forstöðumaður verslunarinnar á Eyrarbakka. Jafnframt var gefin út heimild til að setja niður á verslunarstaðina íbúðarhús fyrir kaupmennina í þeirri viðleitni yfirvalda í Danmörku að efla verslunarlíf og bæta hag Íslendinga.
Ekki er vitað hverjir byggðu Húsið. Talið er víst að það hafi verið danskir smiðir, en Þorgrímur Þorláksson múrari á Bessastöðum hlóð upp reykháfinn, eldstæði og bakaraofn. Þorgrímur var kominn aftur til Bessastaða þann 23. ágúst og var þá verki hans á Eyrarbakka lokið. Munnmælasögur segja að ekkert timbur hafi verið selt úr Eyrarbakkaverslun þetta sumarið því það hafi allt farið í nýbygginguna.
Húsið er svonefnt bolhús,12,7×9 metrar að grunnfleti, með rennisúð á þaki. Stokkarnir voru fluttir tilsniðnir til landsins frá Noregi. Tjargaðir og þéttir bjálkarnir voru ysta klæðning fyrst um sinn og e.t.v. í heila öld.
Að skipulagi bar Húsið í upphafi mörg einkenni danskrar húsagerðar, inngangur að sunnanverðu og norðanverðu, stofur og herbergi til beggja enda, rishæð og hanabjálkaloft.
Byggt var við Húsið árið 1766 en sú viðbygging vék síðar fyrir nýrri viðbyggingu, Assistentahúsinu árið 1881.
Húsið var kaupmannssetur til 1927. Veldi þeirra sem þar bjuggu var ótvírætt, húsbændurnir þjónuðu stærstu verslun landsins en kaupsvæði Eyrarbakkaverslunar náði yfir þrjár sýslur á Suðurlandi. Var ekki laust við að bændur litu með lotningu á Húsið þegar riðið var framhjá því á leið til verslunarhúsanna sem illu heilli voru rifin árið 1950.
Blómatími Hússins á Eyrarbakka var þegar Lefolii stórkaupmaður í Kaupmannahöfn átti verslunina. Var verslunin kennd við kaupmanninn og nefndist Lefolii-verzlun á Eyrarbakka. Þetta er á tímabilinu 1847 til 1918. Lefolii kaupmaður kom gjarnan á vorin og fór að hausti. Allt árið var svo búsettur í Húsinu verslunarstjóri hans ásamt fjölskyldu. Þekktastir þeirra voru Guðmundur Thorgrímsen og síðar Peter Nielsen sem nutu mikilla vinsælda meðal almennings. Mikil umsvif voru við verslunina sem þjónaði þremur sýslum en innan dyra Hússins blómstraði menningin. Í hnotskurn má segja að í Húsinu hafi mæst dönsk borgarmenning og íslensk bændamenning. Fyrir það varð Húsið á Eyrarbakka landsfrægt.
Hjónin Halldór Kr. Þorsteinsson og Ragnhildur Pétursdóttir sem kennd hafa verið við býlið Háteig í Reykjavík, keyptu Húsið árið 1932 og létu gera það upp enda þá komið í niðurníslu. Er talið að það sé í fyrsta sinn sem einstaklingar kaupa hús vegna sögu sinnar og því fyrsta merki um húsavernd á Íslandi. Þau Auðbjörg Guðmundsdóttir og þáverandi eiginmaður hennar Pétur Sveinbjarnarson keyptu Húsið árið 1979 og létu gera upp í upprunalega mynd. Bjó Auðbjörg í Húsinu til ársins 1994. Þá hafði hún selt ríkissjóði Húsið og var Þjóðminjasafni Íslands falin umsjón þess og viðgerðir. Er byggingin nú hluti af húsasafni þess. Frá árinu 1995 hefur Byggðasafn Árnesinga séð um daglegan rekstur Hússins á Eyrarbakka og er með grunnsýningu sína í því.
Húsið á Eyrarbakka er á meðal merkustu menningarverðmæta sem varðveitt er á landsvísu. Þess vegna er vel við hæfi að Húsið sé umgjörð um Byggðasafn Árnesinga. Það eru ekki allir sem geta boðið upp á sýningu í 18. aldar húsi og þar liggur styrkleiki safnsins. Umhverfis Húsið er svo þétt byggð timburhúsa sem byggð voru á tímabilinu 1880 til 1930 og markar þorpinu Eyrarbakka sunnlenska sérstöðu.
Nú sem fyrr er gestkvæmt í Húsinu á Eyrarbakka. Það stendur enn á sínum upprunalega stað og mynda húsin tvö, Húsið og Assistentahúsið, einstakt sjónarhorn þegar horft er til Hússins frá Eyrargötu. Það er margt forvitnilegt í kringum þetta gamla stílhreina hús og merka sögu þess. Það bíður þess að gestir líti það augum. Það er almenningseign og öllum velkomið að drepa þar inn fæti.