Aldamótahátíðin og Byggðasafn Árnesinga
Aldamótahátíðin og Byggðasafn Árnesinga
Byggðasafn Árnesinga tekur þátt í Aldamótahátíðinni á Eyrarbakka með fjölbreyttum hætti.
Í Eggjaskúrnum við Húsið á Eyrarbakka hefur verið sett upp sýning á vatnslitamyndum eftir Eyrúnu Óskarsdóttur frá Hjallatúni á Eyrarbakka. Myndefnið er Eyrarbakki í hnotskurn og er sett upp í tilefni aldamótahátíðarinnar. Sýningin stendur til 16. ágúst.
Gamli slökkvibíllinn sem notaður var á Eyrarbakka um og eftir miðja síðustu öld verður með í skrúðgöngunni frá barnaskólanum að Húsinu. Þar verður honum lagt og hafður til sýnis.
Kúmenfrúin býður í heimsókn í Kirkjubæ. Gestir fá stutta fræðslu um kúmen og gæða sér á kúmenkrydduðu góðgæti. Dagskráin hefst kl. 14.
UniJon dúettinn verður með stutta tónleika í stássstofu Hússins á Eyrarbakka kl. 17.30. Leiknir verða ljúfir tónar eins og þeim Unni og Jóni Tryggva er lagið.
Í lokin er rétt að benda á nýútkomna bók eftir Lýð Pálsson safnstjóra um Húsið á Eyrarbakka. Þessi glæsilega bók er til sölu í afgreiðslu Hússins á Eyrarbakka.