Tónlistin á Bakkanum – tónlistarhátíð

Tónlistin á Bakkanum – tónlistarhátíð

08/10/2024

Boðað er til tónlistarhátíðarinnar Tónlistin á Bakkanum dagana 11.-12. október 2024 á vegum Söngfjelagsins og í samstarfi við Leikfélag Eyrarbakka, kirkjukór Eyrarbakkakirkju og Byggðasafn Árnesinga. Stofutónleikar, málþing og hátíðartónleikar tileinkað tónlistarlífinu á Eyrarbakka og Stokkseyri kringum aldamótin 1900.

Föstudaginn 11. október kl. 20 verður opið hús í Húsinu á Eyrarbakka þar sem einsöngvararnir Björg Þórhallsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson og Hildigunnur Einarsdóttir, ásamt Hilmari Erni Agnarssyni og félögum úr Leikfélagi Eyrarbakka munu skapa ógleymanlega kvöldvökustemningu.

Laugardaginn 12. október kl. 13 verður dagskrá í tali og tónum í Varðveisluhúsi Byggðasafns Árnesinga að Búðarstíg 22 og hefur yfirskriftina Er Bakkinn kannski vagga íslenskrar tónlistar? Þar verða samræður Kristínar Bragadóttur sagnfræðings, Bjarka Sveinbjörnssonar tónlistarfræðings og fleiri gesta um þá merku frumkvöðla íslensks tónlistarlífs sem tengdust Eyrarbakka og Stokkseyri um og eftir aldamótin 1900. Búast má við að stakir félagar úr Söngfjelaginu brýni raustina þar sem við á. Umsjón Jón Karl Helgason.

Laugardaginn 12. október kl. 16 verða hátíðartónleikar í Eyrarbakkakirkju. Flytjendur eru Söngfjelagið undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, einsöngvararnir Björg Þórhallsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson og Hildigunnur Einarsdóttir, og Kór Eyrarbakkakirkju undir stjórn Péturs Nóa Stefánssonar. Á efnisskránni eru lög eftir tónskáld með tengsl við Eyrarbakka. Þá verður frumflutt verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur tónskáld.

Ókeypis er á alla dagskrárliði hátíðarinnar.