Handritin alla leið heim

Handritin alla leið heim

01/05/2013

ArnimaggFöstudaginn 10. maí kl. 18 verður opnuð sýning á handritinu Skáldskaparfræði í Húsinu á Eyrarbakka. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Byggðasafns Árnesinga í tilefni af 350 ára afmæli Árna. Séra Halldór Torfason í Gaulverjabæ afhenti Árna Magnússyni handritið Skáldskaparfræði árið 1691. Það inniheldur meðal annars Snorra-Eddu.

Charlotte Böving leikkona kemur nákvæmri eftirlíkingu handritsins fyrir á  sýningunni og Gísli Sigurðsson íslenskufræðingur fylgir því úr hlaði.

 

Segja má að handritasafn Árna Magnússonar hafi öðlast viðurkenningu heimsins árið 2009 þegar það var tekið upp á varðveisluskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Minni heimsins. Á afmælisárinu verður viðurkenningu UNESCO fylgt eftir með verkefninu Handritin alla leið heim. Með því er ætlunin að draga athygli að því að handritin í safni Árna komu víðs vegar að af landinu; handrit voru skrifuð og lesin um allt land og má segja að hvert hérað geti státað af dýrgrip í Árnasafni. Í tilefni afmælisins hafa verið útbúnar eftirlíkingar af völdum handritum og verður hverri þeirra komið fyrir á stað (eða nálægt þeim stað) sem Árni fékk handritið. Alls verða settar upp sex slíkar örsýningar í samstarfi við söfn og heimamenn. Forvörður Árnastofnunar, Hersteinn Brynjólfsson, er höfundur endurgerðanna, Finnur Arnar Arnarson er sýningarhönnuður, grafískur hönnuður er Sigrún Sigvaldadóttir og ljósmyndari Árnastofnunar, Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir, hefur tekið handritamyndirnar.

 

Nokkrir þjóðþekktir einstaklingar hafa tekið að sér að „fóstra“ handritin sem í hlut eiga; þeir heimsækja Árnastofnun og handritafræðingar kynna þeim handritin, útlit þeirra og sögu og efnið sem þau hafa að geyma. „Fóstran“ fer svo heim í hérað með eftirlíkinguna og afhendir heimamönnum við hátíðlega athöfn þar sem boðið verður upp á dagskrá með kynningu á handritinu og sögu þess. Upplýsingar um handritið og Árna Magnússon verður að finna í bæklingi á nokkrum tungumálum og örsýningunni þar sem handritið verður miðpunkturinn. Vonir standa til að þetta hvetji ekki síst Íslendinga sem ferðast um eigið land til þess að koma við á þessum útvöldu stöðum og fræðast þar – og í framhaldi af heimsókninni – um hið merkilega söfnunarstarf Árna og þýðingu þess fyrir sögu okkar og bókmenntir.

 

Sýningin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

 

Sýningin er opin helgina 11-12. maí kl 13-18 og frá 15. maí til 15. september kl. 11-18.

 

Byggðasafn Árnesinga – Árnastofnun