Súgþurrkað hey
Súgþurrkað hey
Súgþurrkað hey er meðal nýrra aðfanga Byggðasafns Árnesinga.
Um þessar mundir er unnið að skráningu nýrra aðfanga við Byggðasafn Árnesinga. Meðal þess sem skráð er eru munir frá Fossi í Hrunamannahreppi úr búi systkinanna Bjarna og Kristrúnar Matthíasbarna. Meðal þess sem finna má meðal muna Kristrúnar er krukka með þurrkuðu heyi. Á krukkunni stendur: „Fyrsta súgþurrkaða hey á Íslandi. Vífilsstaðir 1941-42“. Engar aðrar skýringar fylgja en vissulega er hey í krukkunni. Með hjálp leitarvélarinnar google var hægt að finna frekari upplýsingar um heyið. Leitarvélin gaf upp vef Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri.
Á vef Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri er að finna hagnýtan sögufróðleik um súgþurrkað hey á Íslandi (http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/137003/). Landbúnaðasafn leitar að upplýsingum um súgþurrkun heys og er eftirfarandi grein frá safninu:
„Leitað heimilda um súgþurrkun heys
Ein mesta bylting í heyskap á 20. öld varð með súgþurrkun heys. Að geta hirt hálfþurrt hey og fullþurrkað það við blástur undir þaki stytti velting heysins á velli um 2-3 daga.
Fóðurefnin varðveittust stórum betur. Heygæðin uxu að mun. Jafnvel svo að enn í dag eru þeir til sem telja að ekki gefist betra hey en súgþurrkuð taða – verkuð eftir uppskriftinni.
(Þessi grein birtist einnig í Bændablaðinu 7. febr. sl. bls. 33)
Súgþurrkun tók að breiðast út hérlendis á seinni hluta fimmta áratugs síðustu aldar. Þekkingin barst frá Bandaríkjunum en var fljótlega löguð að íslenskum aðstæðum. Ungir námsmenn kynntust tækninni vestra og unnu að útbreiðslu hennar hérlendis, m.a. þeir Jóhannes Bjarnasonfrá Reykjum í Mosfellssveit og Haraldur Árnason er lengi var ráðunautur hjá BÍ.
Ágúst Jónsson rafvirkjameistari í Reykjavík hafði líka kynnst tækninni vestra. Það var hann sem „hófst handa um það sumarið 1944 að smíða og útvega blástursútbúnað til heyþurrkunar með þessari aðferð, og fékk að koma honum fyrir í skúr á Vífilsstöðum. Var gerð tilraun með hann þá um haustið.
Gaf sú tilraun þá þegar mjög viðunandi árangur“ . . . sagði í Tímanum 30. október 1945. Þar með hófst saga hinnar nýju heyþurrkunartækni.
Ágúst útvegaði bændum vélar og hafði sett búnaðinn upp á rúmlega 100 bæjum, sagði í skýrslu dagsettri í júní 1947. Hann ferðaðist víða „við leiðbeiningar og … forsögn um niðursetningu á súgþurrkunarvélum á fjölda mörgum heimilum hér og þar á landinu“ sagði ennfremur í skýrslunni.
Töluvert er til af rituðum heimildum um súgþurrkun á Íslandi. Saga hennar hefur þó ekki enn verið tekin saman með heilstæðum hætti. Hjá Landbúnaðarsafni á Hvanneyri er áhugi á því að gera það. Raunar er vart seinna vænna að ná til þeirra sem enn muna fyrstu ár súgþurrkunar-tækninnar í sveitum landsins.
Þessi pistill er áskorun til lesenda, er til málsins þekkja, hvort sem er að minna eða meira leiti, að festa á blað minningar frá upphafsárum súgþurrkunarinnar.
Einnig að bjarga undan gögnum sem tæknina varðar: Þar getur verið um að ræða teikningar, ljósmyndir, reikninga og hvað annað sem snerta kann sögu þessara tímámóta-heyverkunarhátta.
Frásagnir geta snúist um upphaf tækninnar á einstökum bæjum/sveitum, hvenær og hvernig hana bar að, hvernig henni var komið fyrir og hverju hún breytti í vinnubrögðum og verkháttum á viðkomandi bæ. Af mörgu er að taka.
Landbúnaðarsafn hefur þegar fengið afar rækilega greinargerð borgfirsks bónda, Jóhannesar Gestssonar frá Giljum, af fyrstu árum súgþurrkunar þar, studda heildstæðum gögnum, sem hann hafði hirðusamlega haldið til haga.
Nokkra gripi hefur safnið einnig fengið, svo sem blásara og mótora, svo allvel er fyrir þeim hluta séð. Slíkir gripir eru fyrirferðarmiklir og því verða ljósmyndir, líkön og teikningar að duga í sumum tilvikum.
Íslendingar áttu á sínum tíma, held ég, heimsmet í súgþurrkun heys. Líklega var um 75% af töðufeng landsmanna súgþurrkað með einum eða öðrum hætti áður en plasthjúpaðar rúllur urðu hinn almenni geymsluháttur heys.
Fáir trúðu því að unnt væri að súgþurrka hey á votviðrasamri eyju langt úti í hafi. En með því að laga tæknina að íslenskum aðstæðum tókst það, og í því, ekki síst, felst hin merkilega saga.“