Sunnlendingar á Ólympíuleikum

Sunnlendingar á Ólympíuleikum

05/05/2012

G 13Fjölmenni var við opnun sumarsýningar Byggðasafns Árnesinga Sunnlendingar á Ólympíuleikum sem opnaði föstudaginn 18. maí kl. 18 í Húsinu á Eyrarbakka.  Á sýningunni er greint frá afrekum þeirra Skarphéðinsmanna sem náð hafa þeim árangri að keppa á Ólympíuleikum.

Lítið hefur verið gert af því að minnast og heiðra sérstaklega afreksfólk sem náð hefur því takmarki að keppa á Ólympíuleikum – stærsta íþróttaviðburði heimsins. Með sýningunni gefst kærkomið tækifæri til að bæta úr því. Svo skemmtilega vill til að Sigfús Sigurðsson var fyrstur Sunnlendinga til að keppa á Ólympíuleikum í London 1948, en leikarnir í ár fara einmitt fram í þeirri sömu borg.

 

Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands  hafa Héraðssambandið Skarphéðinn og Byggðasafn Árnesinga tekið sig saman um sýningu í Húsinu á Eyrarbakka undir heitinu Sunnlendingar á Ólympíuleikum.  Markmið með sýningunni er að kynna og vekja athygli á íþróttafólki í héraði, sem náð hefur þeim áfanga að keppa á Ólympíuleikum.  ÍSÍ er 100 ára í ár og sýningin er framlag Sunnlendinga í afmælishátíðarhöldunum á þessum tímamótum.

 

Að sýningunni unnu starfsmenn Byggðasafns Árnesinga, framkvæmdastjóri  HSK og sögu- og minjanefnd HSK.  Örn Guðnason hannaði spjöldin en Jón M. Ívarsson samdi texta.  Sýningin hefði ekki orðið til nema með samvinnu við Ólympíufarana sem lánuðu til sýningarinnar ljósmyndir og persónulega muni sem tengdust för þeirra á Ólympíuleikana. Nokkrir munir voru jafnframt fengnir að láni hjá Íþróttasafni Íslands á Akranesi.

Sýningin er í Húsinu á Eyrarbakka frá 18. maí til 15. september 2012. Opið alla daga frá 11:00 – 18:00.

Sýningin var styrkt af Menningarráði Suðurlands og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

Ljósmyndin fyrir neðan var tekin við opnunina af viðstöddum Ólympíuförum og fulltrúum þeirra.  Efst í greininni er ljósmynd af Þórdísi Gísladóttur í hástökki.

Ólympíufara

Ólympíufarar, þjálfarar, liðstjórar eða aðstandendur þeirra, frá vinstri: Margrét Sigfúsdóttir, Þráinn Hafsteinsson, Þórdís Gísladóttir, Örvar Ólafsson, Jón M. Ívarsson liðsstjóri,  Dómhildur Sigurðardóttir,  Vésteinn Hafsteinsson, Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Helgi Sigurður Hafsteinsson, Eysteinn Þorvaldsson, Bryndís Ólafsdóttir, Hergeir Kristgeirsson og Hrafnhildur Guðmundsdóttir.