Framkvæmdir við safnið

Framkvæmdir við safnið

08/02/2021

Í vor flytur Byggðasafn Árnesinga innri aðstöðu sína úr Hafnarbrú 3 í Búðarstíg 22. Búðarstígur 22 er að jafnaði nefnt Alpan-húsið en nú væri upplagt að finna byggingunni nýtt nafn í takt við nýtt hlutverk. Húsnæðið var keypt af safninu árið 2019 fyrir innra safnastarf, skrifstofur, varðveisluaðstöðu, fræðslurými og sýningarsal. Síðan húsnæðið var keypt hefur verið unnið að framkvæmdum og stefnt að verklokum í vor.

Grímur Jónsson verktaki og menn hans ásamt undirverktökum hafa undanfarna mánuði unnið að viðgerðum og aðlögun húsnæðis að nýju hlutverki. Framkvæmdum lýkur í apríl.

Þann 4. febrúar 2021 var Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarráðherra stödd á Eyrarbakka og skrifaði fyrir hönd ráðuneytisins undir samning við Byggðasafn Árnesinga um 25 milljón króna stofnstyrk til safnsins vegna kaupa og framkvæmda við Búðarstíg 22 á Eyrarbakka. Styrkur þessi á sér stoð í safnalögum þar sem viðurkennd söfn geta sótt um stofnframlag til uppbyggingar húsnæðis. Ráðherra skoðaði húsið og síðan skrifuðu hún og safnstjóri undir samninginn.

Meðfylgjandi myndir eru af húsinu, framkvæmdum og undirritun samningsins.