Fröken Lunn kemur í heimsókn

Fröken Lunn kemur í heimsókn

18/06/2020

Fröken Lunn kemur í heimsókn

Höggmyndin, Húsið og íslenski hesturinn

Agnes Lunn lengst til vinstri í hópi heimafólks og gesta sennilega árið 1912.

Sumarsýning Byggðasafns Árnesinga verður opnuð í borðstofu Hússins á Eyrarbakka sunnudaginn 21. júní klukkan 14. Sýningin heitir Fröken Lunn kemur í heimsókn – Höggmyndin, Húsið og íslenski hesturinn. Viðfangsefni sýningarinnar er Agnes Lunn, dönsk myndlistarkona sem setti svip sinn á bæjarlífið á Eyrarbakka í upphafi tuttugustu aldar. Hún dvaldi jafnan sumarlangt í Húsinu í boði Lefolii kaupmanns og vann gjarnan úti við að list sinni og fangaði með henni sitt uppáhaldsviðfangsefni, íslenska hestinn. Sýningarstjóri er Ásgerður Júníusdóttir, Safnasjóður og Uppbyggingasjóður Suðurlands styrktu sýninguna sem stendur til septemberloka.

Ókeypis aðgangur er á söfnin á Eyrarbakka á sunnudag og léttar veitingar við sýningaropnun.

Í kjölfar opnunar sýningarinnar verður spilað á fyrsta píanóið sem kom í Húsið en það var gefið safninu nýlega. Þetta er píanó sem var í Húsinu tímabilið 1855 til 1890. Þá fór það úr Húsinu til hjúa sem kynntust í Húsinu. Það voru hjónin Helga Friðrikka Vigfúsdóttir og Siggeir Torfason. Afkomendur þeirra gefa nú safninu píanóið og er það komið í sitt upprunalega hús, Húsið á Eyrarbakka.

Hvernig væri að leggja leið sína á Eyrarbakka og heimsækja söfnin? Húsið er heillandi og sögufrægt kaupmannsheimili þar sem sögð er meira en 250 ára gömul saga verslunar og menningar. Sjóminjasafnið hýsir hið merka áraskip Farsæl og undraveröld fugla og eggja er í Eggjaskúr. Í litla alþýðuhúsinu Kirkjubæ er sýning um byltingartímana þegar rafljós kom í hús og fólk eignaðist útvarp og gúmmístígvél. Ratleikur um allt safnasvæðið er í boði fyrir alla fjölskylduna. Opið alla daga í sumar kl. 11–18.