Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka

21/06/2019

Á morgun, laugardaginn 22. júní, verður hin árlega Jónsmessuhátíð haldin á Eyrarbakka. Fjölbreytt dagskrá er í boði. Safnið er opið frá 11-18 eins og vant er og enginn aðgangseyrir þennan dag. Þjóðdansafélag Reykjavíkur dansar í garðinum við Húsið kl. 2 og andlitsmálun fyrir börn verður í fjárhúsinu á Garðtúni bak við Húsið kl. 1-3. Um kvöldið verður samsöngur í Húsinu þar sem Heimir Guðmundsson leikur undir söng á elsta píanó á Suðurlandi. Sungið verður úr skólaljóðunum og hver syngur með sínu nefi. Söngurinn hefst kl. 8. Í borðstofu Hússins er ljósmyndasýningin Rófubóndinn þar sem Vigdís Sigurðardóttir sýnir eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi. Tilvalið er að nota tækifæri og skoða þá skemmtilegu sýningu. Gamli slökkviliðsbíllinn verður til sýnist úti á túni. Verið velkomin.

Samsöngur í Húsinu á Jónsmessuhátíð.

Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka  22.júní 2019 DAGSKRÁ

Föstudagur 21. júní
Jónsmessubolti hverfa-litanna kl. 18:00~

Mæting á fótboltavöll Eyrbekkinga Merkisteinsvöllum. Veitingar í boði og forlátur farandbikar fyrir vinningsliðið.

Laugardagur 22. júní

Kl. 08:30 Fánar dregnir að húni

Kl. 09:00–11:00 Morgunverður í Hallskoti

Skógræktarfélag Eyrarbakka býður til morgunverðar og samverustundar í skógræktinni, sem félagið annast um í Hallskoti. Ekið um Sólvangs- og Flóagaflsveg.

Kl. 09:00 Jóga í Hallskoti

Helga Guðný Jónsdóttir verður með rólega jógastund í rjóðri í Hallskoti.

Kl. 09:00–22:00 Verslunin Bakkinn

Verslunin verður opin til kl. 22:00. Frír ís fyrir börnin um miðjan daginn.

Kl. 10:30–17:00 Hundrað ár í Sjónarhól

Í ár eru 100 ár liðin síðan Guðlaugur Pálsson kaupmaður flutti verslun sína úr Kirkjuhúsi í Sjónarhól. Verslunin verður opin af því tilefni og kl. 11 og 15 verður saga hússins Sjónarhóls og Laugabúðar rakin í stuttu máli á tröppunum við verslunina.

Kl. 11.00 -18.00 Söfnin á Eyrarbakka

Opið í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafninu og Kirkjubæ. Í borðstofu Hússins er ljósmyndasýningin Rófubóndinn þar sem Vigdís Sigurðardóttir sýnir eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi sem hefur ræktað gulrófur á Eyrarbakka í 53 ár. Gamli slökkviliðsbíllinn verður til sýnist úti á túni og ókeypis aðgangur í öll safnhúsin.

Ókeypis aðgangur.

Kl. 12:00 Leikhópurinn Vinir við Sjóminjasafnið

Leikhópurinn Vinir skemmtir ungum sem öldnum með leiksýningunni Karíus og Baktus.

Kl. 12:30 Þrautabraut á Garðstúninu
Þrautabrautir fyrir 2-5 ára, 6 -10 ára og 11-14 ára.

Kl. 13:00-14:00 Hestar á Garðstúninu
Teymt verður undir börnum.

Kl. 13:00–15:00 Andlitsmálun í safninu
Andlitsmálun fyrir börn verður í fjárhúsinu á Garðtúni bak við Húsið. Ókeypis.

Kl. 13:00-15:00 Brunavarnir Árnessýslu á bílastæðinu við Stað
Brunavarnir Árnessýslu mæta á bílastæðið við samkomu húsið Stað með brunabíl til sýnis.

Kl. 13:00–16:00 Sölubásar á bílastæði Rauða hússins og byggðasafnsins
Þrír sölubásar verða staðsettir við bílastæði Rauða hússins og Hússins.

Kl. 14.00 Dansað við safnið
Þjóðdansafélag Reykjavíkur gleður gesti með dansi í garðinum fyrir framan Húsið.

Kl. 14:00-16:00 Boðið upp á kjötsúpu hjá Rauða Húsinu
Rauðahúsið mun matreiða íslenska kjötsúpu. Frítt fyrir þá sem mæta með eigin ílát!

Kl. 14:00-16:00 Sætaferðir bjóðast á hestvagni
Sætaferðir á hestvagni stuttan spöl um Eyrarbakka bjóðast frá Sjóminjasafninu.

kl. 14:00-16:00 Opið hlað
Skessan Ólöf Lilja mun skarta sínu fegursta við Mangaskúra vestast á Túngötunni, einnig verða traktorar til sýnis á hlaðinu fyrir áhugasama.

Kl. 14:00–16:00 Heimboð á þrjá staði
Guðrún og Ólafur taka á móti gestum í Kirkjuhúsi sem stendur við Eyrargötu beint á móti byggðasafninu.

Jóna Björg og Júlli í Björgvin á Hjallavegi 3 verða með opið hús og markað úti í garði.

Júlía Laufey og Hjörtur á Háeyrarvegi 5 bjóða gestum heim.

Kl. 14:00–16:00 Sólvangur – Miðstöð íslenska hestsins
Opið hús á Sólvangi.

Kl. 15:00 Sprite Zero Klan
Sprite Zero Klan flytja tónlist við Sjóminjasafnið

Kl. 20:00-21.20 Samsöngur í Húsinu
Heimir Guðmundsson leikur undir söng á elsta píanó á Suðurlandi. Sungið verður úr skólaljóðunum og hver syngur með sínu nefi.

Kl. 22:00 Jónsmessubrenna
Að venju verður Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakka. Að þessu sinni ávarpar Íris Böðvarsdóttir samkomugesti. Söngur, glens og gaman að hætti Eyrbekkinga.

Kl. 22:00–04:00 Kjallarinn á Rauða Húsinu
Fjörið heldur áfram að venju fram eftir kvöldi í Kjallaranum á Rauða. Aldurstakmark 18 ára.

Björgunarsveitin Björg býður ungum og öldnum að veiða frítt í Ölfusárósi fyrir landi Eyrarbakka dagana 22. til 24. júní 2019.

Jónsmessuhátíðin er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg, Björgunarsveitinni Björg, Ungmennafélagi Eyrarbakka, Slysavarnadeildinni Björg á Eyrarbakka, Rauða húsinu, Versluninni Bakkanum og Southdoor.