Lóurnar, jólalestur og spýtujólatré í Húsinu á Eyrarbakka
Lóurnar, jólalestur og spýtujólatré í Húsinu á Eyrarbakka
Sönghópurinn Lóurnar syngur nokkur falleg jólalög laugardaginn 15. desember kl. 15 í Húsinu á Eyrarbakka og sunnudaginn 16. desember verður flutt sögubrot frá jólum fyrri tíðar.
Safnið er með sérstaka jólaopnun í desember og þessa komandi helgi er opið bæði laugardag og sunnudag frá 13.00 til 17.00 og enginn aðgangseyrir. Söngkonurnar sem skipa Sönghópinn Lóurnar eru: Halla Dröfn Jónsdóttir, Elín Gunnlaugsdóttir, Halla Marínósdóttir, Kolbrún Hulda Tryggvadóttir, Halldóra Steindórsdóttir og Elísabet Hermundardóttir og munu þær sannarlega fylla Húsið af fögrum jólatónum á laugardag. Á sunnudag 16. desember kl. 15 mun Lýður Pálsson safnstjóri svo flytja nokkrar vel valdar frásagnir sem gefa innsýn inní jólin áður fyrr.
Gestum gefst jafnframt gott tækifæri til að skoða jólasýningu safnsins þar sem gömul jólatré eru í forgrunni. Elsta varðveitta jólatré landsins er spýtujólatré frá Hruna sem var smíðað árið 1873. Nú er nýsmíðuð eftirlíking af Hrunatrénu til sýnis og var þetta árið fallega skreytt af krökkum í 10. bekk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Litla alþýðuhúsið Kirkjubær er einnig opið. Aðventukaffi er á boðstólum fyrir gesti og gangandi og allir velkomnir. Þetta eru síðustu dagar í séropnun safnsins fyrir þessi jól en alltaf má panta séropnun fyrir hópa stóra sem smáa og skólabörn eru sérlega velkomin. Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.