Árborg – sjáðu þetta!
Árborg – sjáðu þetta!
Í tilefni 20 ára afmælis Sveitarfélagsins Árborgar og menningarhátíðarinnar Vor í Árborg kynnum við fjóra kjörgripi í eigu Byggðasafns Árnesinga. Einn gripur frá hverju sveitarfélagi sem stóð að stofnun Árborgar.
Þessir gripir eru valdir af handahófi. Ekki er gert upp á milli safnmuna Byggðasafns Árnesinga. Þeir bera allir vitni um líf, störf og menningu héraðsins. Vissulega hefur safnið ekki alla gripi sína til sýnis en varðveisluaðstaða safnsins er mjög góð og markmið starfsmanna að varðveita þá til næstu kynslóða. Allir safnmunir Byggðasafns Árnesinga og Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka eru skráðir í miðlægan gagnagrunn íslenskra safna Sarp. Með því að fara á síðuna www.sarpur.is er hægt að fræðast um aðföng íslenskra safna, þar á meðal safnmuna Byggðasafns Árnesinga.
Sýningin Árborg – sjáðu þetta! í borðstofu Hússins á Eyrarbakka verður opin á sumardaginn fyrsta 19. apríl kl. 13-15, föstudaginn 20. apríl til sunnudagsins 22. apríl kl. 14-17. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Heitt á könnunni.
Meðfylgjandi mynd er af hvalbeini Helgu sem bjó í Grímsfjósum á Stokkseyri. Hvalbeinið er einn af sýningargripunum ásamt viðeigandi texta um sögu þess.