Andar lýsa upp Húsið í ágústlok

Andar lýsa upp Húsið í ágústlok

18/08/2016

Mikil ljósadýrð verður við Húsið í ágústlok þegar  listahópurinn Tura Ya Moya, undir forystu dönsku listakonunnar Karen Thastum, heimsækir söfn Árnessýslu og sýnir mynd- og hljóðgjörning utandyra. Listaverk gengur undir grænlenska nafninu Anersaaq  eða Andi á íslensku og opnun verður við Húsið fimmtudagskvöldið 25. ágúst.  Dagskráin hefst kl. 21.30 með kynningu og tónlistarviðburði. Allir eru velkomnir og kvöldopnun verður á safninu. Listaverkið gengur í fjögur kvöld við Húsið 25.-28. ágúst en færist síðan yfir á Héraðsskjalasafn Árnesinga á Selfossi í tvö kvöld 29. og 30. ágúst og verður við Listasafn Árnesinga í Hveragerði fram til 9. september.

Um er að ræða ljósagjörning utandyra þar sem mynd og hljóð tvinnast saman á magnaðan hátt.  Listaverkið er alþjóðlegt og ferðast á milli smárra byggða í Noregi, Íslandi, Grænlandi og Danmörku.  Byggingar safnanna verða baðaðar ljósi að kvöldlagi við tónlistarundirleik. Vinnusmiðjur verða haldnar  samhliða sýningunni og listamenn færa síðan afraksturinn í margmiðlunarbúning. Á þann hátt bætist stöðugt efni við listaverkið sem verður að lokum bræðingur af anda hvers staðar.  Fyrsta vinnusmiðjan verður í safninu á Eyrarbakka föstudaginn 26. ágúst frá kl. 16.00 -18.00. Aðstaða Tura ya Moya er gámur sem gegnir hlutverki vinnustofu og sýningarklefa. Gámurinn flakkar á milli landa og staða og er núna staðsettur inni í  garði Hússins á Eyrarbakka. Í för með Karen verða listamennirnir Udo Erdenreich og Mia Lindenhann en fjölmargir aðrir leggja verkefninu lið. Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu verkefnisins www.anersaaq.com og heimasíðum safnanna.

Byggðasafnið hefur hlotið styrki fyrir verkefnið frá Safnaráði, Uppbyggingasjóði Suðurlands og JÁVerk auk þess að fá ómetanlegan stuðning frá Eimskip. Einnig hafa hjónin Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson veitt verkefninu dyggan stuðning. Verkefnið á alþjóðavísu er styrkt m.a. af Kulturkontakt Nord og NAPA.

Husid

Myndin sem fylgir er samsett mynd Karenar sem gefur hugmynd um hvað gestir eiga von á að sjá. Sjón er þó sögu ríkari og verður spennandi að bjóða gestum uppá þennan gjörning.