Ljósan á Bakkanum

Ljósan á Bakkanum

11/05/2013

Baráttumál, starfsaðstæður og langur og strangur æfiferill ljósmóður eru viðfangsefni sýningar sem opnuð verður í Húsinu á Eyrarbakka föstudaginn 24. maí og nefnist Ljósan á Bakkanum.

thordisSýningin fjallar um líf og störf Þórdísar Símonardóttur, ljósmóður á Eyrarbakka 1883-1926.Sjónum verður beint að aðstæðum fæðandi kvenna á þessum tíma, starfsaðstæðum og kjörum ljósmæðra, sem flestar urðu að vinna önnur störf meðfram ljósmóðurstarfinu.

Þórdís var fædd 22. ágúst 1853 að Kvígsstöðum í Andakílshreppi, hún flutti á Eyrarbakka 1883 tæplega þrítug að aldri, bjó þar í hálfa öld og sinnti lengst af ljósmóðurstörfum. Hún lést 1933.

Ljósan á Bakkanum er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Brúarsmiðjunnar og Eyrúnar Ingadóttur sagnfræðings og höfundar bókarinnarLjósmóðirin sem kom út á síðasta ári og fjallar um Þórdísi ljósmóður. Höfundur sýningarinnar er Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari. Styrktaraðilar eru Menningarráð Suðurlands og Safnaráð. Sýningin er opin alla daga kl. 11-18 og henni lýkur 15. september.

kista

Meðfylgjandi ljósmynd er af Þórdísi Símonardóttur  (Ljósmyndasafn Íslands / Sigfús Eymundsson).  Myndin fyrir neðan sýnir kistu Þórdísar ásamt blóðtökusetti og stólpípum (Byggðasafn Árnesinga / Lýður Pálsson).