Húsið á Eyrabakka

Byggðasafn Árnesinga

Sjóminjasafnið á Eyrarbakka

 safninu eru munir frá Eyrarbakka með áherslu á sjósókn, iðnað og félags- og menningarsögu síðustu 100 ára. Stærsti og merkasti safngripurinn er áraskipið Farsæll, sem Steinn Guðmundsson skipasmiður á Eyrarbakka smíðaði fyrir Pál Grímsson, útvegsbónda í Nesi í Selvogi. Steinn var helsti skipasmiður á Suðurlandi í lok 19. aldar og byrjun 20. aldar og smíðaði hann yfir 400 skip og báta á sínum starfsferli. Farsæll er tólfróinn teinæringur með sérstöku lagi, sem Steinn innleiddi á báta sína og kennt hefur verið við hann og nefnt Steinslag. Það bátalag tók mið af aðstæðum í brimverstöðvunum á Suðurlandi, Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn og Selvogi, og þótti henta mjög vel þar.

Einnig eru sýnd veiðarfæri og búnaður sjómanna bæði frá árabátatímanum og upphafi vélbátaútgerðar. Upphaf handiðnaðar í

þéttbýli á Suðurlandi var á Eyrarbakka og sýndir eru munir frá bakara, gullsmið, úrsmið, beyki og söðlasmið.

Sjóminjasafnið á gott ljósmyndasafn og er hluti þess sjáanlegur á www.sarpur.is.

Þá er í eigu Sjóminjasafnsins beitningaskúr byggður 1925 á blómaskeiði vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Allsérstæð klæðning er á vesturhlið skúrsins, þar sem lítill árabátur hefur verið tekinn og flattur út og notaður sem klæðning á vegginn.

Sjóminjasafnið á Eyrarbakka er rekið af Byggðasafni Árnesinga og er forstöðumaður Lýður Pálsson. Eigandi safnsins er Sveitarfélagið Árborg.

Sameiginlegur aðgöngumiði gildir að söfnunum á Eyrarbakka. Opið er á sömu tímum og Húsið.

Rit:

Margur í sandinn hér markaði slóð – Eyrarbakkahreppur 1897-1998 e. Ingu Láru Baldvinsdóttur. Útgáfuár 1998. (Uppseld hjá safninu, fæst í Verslun Guðlaugs Pálssonar)

Eyrarbakki – Örnefnaskrá e. Guðmund Þórarinsson og Sigurð Andersen. Útgáfuár 1998.

Ritin tvö fást í söfnunum á Eyrarbakka, Verslun Guðlaugs Pálssonar á Eyrarbakka og í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.

Phone

(+354) 483-1504

VISIT

11:00 – 18:00
Mán–Sun

Byggðasafn Ánesinga

Email

info@byggdasafn.is

Address

Eyrargata 50, 820 Eyrarbakki