Húsið á Eyrabakka

Byggðasafn Árnesinga

Íslensku safnaverðlaunin 2002

Álitsgerð dómnefndar

Safnaverðlaunin eru nú veitt í þriðja skipti, en til þeirra var stofnað á árinu 2000 að frumkvæði Íslandsdeildar ICOM og Félags íslenskra safnamanna. Síldarminjasafnið á Siglufirði hlaut verðlaunin fyrst safna, en í fyrra fékk Fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur verðlaunin. Markmiðið með verðlaunaveitingunni er að efla faglegan metnað íslenskra safna og hvetja þau til að kynna menningararf þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Verðlaunin verði veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og ekki er gerður greinarmunur á tegund safna. Verðlaunin má veita fyrir heildarstarfsemi safns eða vegna einstakra þátta safnstarfsins. Að þessu sinni bárust átta tilnefningar frá félagsmönnum beggja félaga, eftirfarandi söfn eru tilnefnd:

  • Árbæjarsafn fyrir metnaðarfulla viðburðadagskrá og miðlun gegnum námskeið
  • Byggðasafn Árnesinga fyrir fjölbreytni sýninga
  • Byggðasafn Árnesinga fyrir geymsluhúsnæði
  • Byggðasafn Hafnafjarðar fyrir líflega starfsemi
  • Byggðasafn Ísfirðinga  fyrir menningardagskrár
  • Byggðasafn Skagfirðinga fyrir þemasýningar á safnasvæðinu og fjölbreyttar sýningar utan þess
  • Byggðasafnið á Skógum, fyrir ötula uppbyggingu Þórðar Tómassonar
  • Listasafn Íslands fyrir gagnagrunninn Virtual Collection, upplýsingakerfi á sviði myndlistarvörslunnar

Dómnefnd var skipuð tveimur fulltrúum Íslandsdeildar ICOM, þeim Lilju Árnadóttur og Kristínu Guðnadóttur og tveimur fulltrúum FÍSOS þeim Jóhanni Ásmundssyni og Guðbrandi Benediktssyni, vegna utanferðar Guðbrands tók Karl Rúnar Þórsson síðan sæti Guðbrands. Oddamaður var Ingileif Thorlacius, fulltrúi verðlaunahafa síðasta árs, og var hún skipuð sameiginlega af báðum félögum.

Dómnefnd íslensku safnaverðlaunanna samþykkti að veita Byggðasafni Árnesinga íslensku safnaverðlaunin árið 2002, fyrir byggingu á þjónustuhúsnæði safnsins sem var fullfrágengið í apríl sl. Ákvörðun eigenda safnsins um að reisa þjónustuhúsið með þeim hætt sem gert var er eftirbreytnivert þar sem sú framkvæmd lýsir því að lögð er áhersla á faglegt innra starf og framsýni í safnstarfinu.Segja má að Byggðasafn Árnesinga hafi frá upphafi glímt við aðstöðuleysi svo sem fleiri söfn í landinu gera. Árið 1995 hófst uppbyggingarskeið hjá safninu þegar opnaðar voru nýjar sýningar í Húsinu og Assistentahúsinu á Eyrarbakka. Þá höfðu bæði húsin hlotið gagngera viðgerð en eftir stóð að rými vantaði fyrir innra starf safnsins, þ.e. söfnun, varðveislu, skráningu og sýningagerð. Innra starf safnanna er grundvöllur þess sem blasir við hinum almenna safngesti. Skráning og yfirsýn starfsmanna yfir safnkostinn, traustur og öruggur aðbúnaður hans eru mikilvægustu þættir þess að safnstarfið þrífist til framtíðar.

Þetta hefur verið leiðarljós forráðamanna Byggðasafns Árnesinga sem báru gæfu til þess að leysa frumþarfir stofnunarinnar með uppbyggingu þjónustuaðstöðu safnsins á Eyrarbakka. Húsið var reist á skömmum tíma en frá því að framkvæmdin var boðin út í alútboði í september 2001 liðu aðeins átta mánuðir þar til verktaki afhenti húsið fullbúið 19. apríl. Staðsetning þess í þorpinu á afmarkaðri lóð utan sjálfs safnsvæðisins er prýðileg. Vinnustaða fyrir starfsmenn safnsins er mjög góð og vinnan við að koma safngripunum í framtíðarhúsnæði er spennandi verkefni.

Það væri fengur fyrir safnastarfsemi á Íslandi ef fleiri söfn ættu þess kost að tryggja starfsemi sína og varðveislu muna með svipuðum hætti og aðstandendur Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka hafa búið sínu safni.

 

 

Lýður Pálsson safnstjóri tekur við Íslensku safnaverðlaununum 2002 úr hendi Björns Bjarnasonar fyrrverandi menntamálaráðherra.

Phone

(+354) 483-1504

VISIT

11:00 – 18:00
Mán–Sun

Byggðasafn Ánesinga

Email

info@byggdasafn.is

Address

Eyrargata 50, 820 Eyrarbakki